Erlent

Tugir íbúðarhúsa brunnu til grunna

Baráttan við eldana. Um 1.600 hektarar af skóglendi eru brunnir.fréttablaðið/AP
Baráttan við eldana. Um 1.600 hektarar af skóglendi eru brunnir.fréttablaðið/AP

Ástralskir slökkviliðsmenn börðust við gróðurelda á tveimur stöðum í vestanverðri álfunni í dag. Varpað var vatni á eldana til að reyna að halda þeim í skefjum.

Á öðrum staðnum, rétt hjá borginni Perth, höfðu eldarnir eyðilagt að minnsta kosti fjörutíu íbúðarhús og einn slökkviliðsmaður hafði hlotið meiðsli.

Samtals höfðu eldarnir eyðilagt 1.600 hektara af skóglendi.

„Það ánægjulega er að engin dauðsföll hafa orðið og enginn hefur slasast alvarlega,“ sagði Craig Hynes, yfirmaður í slökkviliðinu. Íbúar sem þurftu að yfirgefa heimili sín í gær höfðu ekki fengið að snúa til baka í dag.

Meðan eldarnir geisa í vestanverðri Ástralíu eru íbúar í austurhluta álfunnar rétt að byrja að ná sér, annars vegar eftir fellibyl sem skall á í Queensland-fylki í síðustu viku og hins vegar eftir flóðin miklu í Queensland og Viktoríu-fylki.

Febrúar er síðasti sumarmánuðurinn í Ástralíu og þá er hættan á gróðureldum og flóðum mest.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×