Fótbolti

Önnur slagsmál í göngunum eftir sigur Tottenham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gennaro Gattuso og Peter Crouch.
Gennaro Gattuso og Peter Crouch. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar greina frá því að leikmenn Tottenham og AC Milan hafi slegist í göngunum inn í búningsklefa á San Siro-vellinum eftir leik liðanna í Meistaradeild Evrópu á þrijðudagskvöldið.

Eins og frægt er varð allt vitlaust þegar að Gennaro Gattuso skallaði Joe Jordan, aðstoðarþjálfara Tottenham, eftir leik liðanna.

Nú virðist sem svo að þetta hafi haldið áfram þegar að leikmenn voru komnir í göngin og úr færi myndavélanna á vellinum.

Gattuso mun einnig hafa verið aðalmaðurinn í þessum slagsmálum og þurftu liðsfélagar hans, þeir Kevin-Prince Boateng og fyrirliðinn Alessandro Nesta, að skerast í leikinn.

„Þú verður að hætta þessu, Rino. Annars færð þú margra mánaða bann," mun Nesta hafa sagt við hann.

Sebastien Bassong, leikmaður Tottenham, mun einnig hafa átt hörð orðaskipti við þá Robinho og Mario Yepes. Zlatan Ibrahomvic varaði þá leikmenn Tottenham við og sagði þeim að þessu máli „væri ekki lokið" en liðin mætast í síðari viðureigninni eftir þrjár vikur á White Hart Lane.

Það er þó ólíklegt að eitthvað verði gert í þessu máli nema að dómari leiksins minnist á það í skýrslu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×