Skoðun

Menntun

Skúli Steinar Pétursson skrifar
Ég var í rauninni ekki velkominn í háskólanám. Það var ekki gert ráð fyrir mér af því að ég er með fötlun.



Ég vil geta fyllt út umsókn í háskóla. Ég vil líka fá að velja námsbrautir og námsgreinar eftir áhugasviði mínu. Það er mikilvægt að allt fatlað fólk sé velkomið í hvaða skóla sem er. Við eigum rétt á því að velja skóla, skóla án aðgreiningar.



Við eigum rétt á því að velja sömu námsbrautir eins og ófatlaðir á öllum skólastigum.

Í 24. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um menntun. Þar segir:



„…að fatlað fólk sé ekki útilokað frá hinu almenna menntakerfi vegna fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi, eða námi á framhaldsskólastigi, vegna fötlunar,….“

Þar segir líka:



„Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að hefja almennt nám á háskólastigi og að það fái aðgang að starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.“



Í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum þarf að vera nám með stuðningi fyrir fatlaða nemendur sem þurfa meiri tíma til þess að læra námsefnið.

Mér finnst að fatlaðir nemendur eigi ekki að vera í sérdeildum. Þeir eiga að vera í bekk með ófötluðum nemendum. Við eigum rétt á að vera í okkar hverfisskóla.



Það sem þarf að gera:

- Breyta viðhorfi til fatlaðs fólks.

- Tryggja fötluðum nemendum öryggi í skólum.

- Koma í veg fyrir að fatlaðir nemendur séu lagðir í einelti.

- Menntakerfið þarf að bæta skólana almennt.

- Stuðningur fyrir fatlaða á að vera í öllum almennum skólum.

- Það eiga ekki að vera sérskólar fyrir fatlað fólk.

- Fatlað fólk þarf að vera velkomið í alla skóla.

- Það þarf að bæta kennslufræðina og námsefnið á öllum skólastigum.



Fólk með fötlun þroskast betur félagslega með því að vera í skóla án aðgreiningar. Allir verða hamingjusamari þegar allt fólk á sama rétt til þátttöku í heilbrigðu samfélagi.




Skoðun

Sjá meira


×