Erlent

Hvar eru Alessia og Livia?

Mikil leit stendur nú yfir víða um heim að sex ára gömlum tvíburasystrum. Lögreglan í þremur ríkjum leitar nú að stúlkunum en faðir þeirra rændi þeim af heimili þeirra í Sviss á dögunum. Hann framdi síðan sjálfsmorð með því að stökkva fyrir lest og enginn veit hvar stúlkurnar eru niðurkomnar. Alþjóðalögreglan Interpol hefur lýst eftir stúlkunum, sem heita Alessia og Livia, og þyrlur og leitarhundar hafa verið notaðar til að kemba svæðið í kringum Puglia á Ítalíu, en faðirinn lést þar.

Talið er að faðirinn hafi farið með stúlkurnar frá Sviss til Ítalíu í gegnum Frakkland og því er leitað þar einnig. Maðurinn hafði skilið við barnsmóður sína fyrir nokkru síðan en braust inn á heimili hennar og tók stúlkurnar. Hann keyrði í burtu á bíl konunnar sem fannst síðan á Ítalíu skammt frá þeim stað þar sem hann lést. Talið er vitað að feðginin hafi verið á ferðinni í Marseille í Frakklandi í lok janúar því maðurinn sendi barnsmóður sinni póstkort þaðan auk þess sem hann hafði notað hraðbanka í borginni.

Að öðru leyti er ekkert vitað hvar stúlkurnar gætu verið niðurkomnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×