Erlent

Treystir ekki réttarkerfi Svía

Julian Assange.  Nokkrar vikur gætu liðið áður en breski dómarinn tekur ákvörðun í framsalsmálinu.
Julian Assange. Nokkrar vikur gætu liðið áður en breski dómarinn tekur ákvörðun í framsalsmálinu. Mynd/AP

Geoffrey Robertson, lögmaður Julians Assange, segir að verði Assange framseldur til Svíþjóðar eigi hann á hættu að brotið verði á réttindum hans.

Bæði sé það brot á alþjóðareglum að halda réttarhöld fyrir luktum dyrum, auk þess sem hætta sé á að Assange verði annaðhvort framseldur eða fluttur ólöglega til Bandaríkjanna, þar sem hann gæti átt yfir höfði sér þunga refsingu vegna bandarískra leynigagna sem birt voru á Wikileaks.

Þá sagði Robertson fyrir rétti í London í gær að Svíar gætu ekki gert kröfu um framsal til Svíþjóðar vegna þess að Assange hefði enn ekki verið ákærður, auk þess sem ásakanir um „minni háttar nauðgun“ gæti ekki talist nauðgun samkvæmt breskum og evrópskum lögum.

Clare Montgomery, lögmaður Svía, segir ekkert hæft í þessum ásökunum. Ekkert verði bogið við réttarhöld í Svíþjóð og enginn vafi leiki á því að framsalskrafa eigi rétt á sér í þessu máli.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×