Fótbolti

Van Nistelrooy segir það koma til greina að fara aftur til Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruud van Nistelrooy fagnar hér marki með HSV.
Ruud van Nistelrooy fagnar hér marki með HSV. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Ruud van Nistelrooy hefur staðfest það að Real Madrid sé áhugasamt um að fá hann aftur til félagsins. Hollendingurinn sem er orðinn 34 ára gamall gæti leyst af Argentínumanninn Gonzalo Higuaín sem spilar ekki meira í vetur vegna meiðsla.

Van Nistelrooy kom til Real Madrid frá Manchester United árið 2006 og skoraði 46 mörk í 68 leikjum með liðinu. Hann fór til þýska liðsins Hamburg í janúar 2010 eftir að hafa misst mikið úr vegna meiðsla síðustu tvö tímabilin sín á Santiago Bernabeu.

„Það er geggjað að þetta sé að gerast. Það er einstakt að svona stórt félag vilji fá mann á mínum aldri. Ég mun íhuga þetta alvarlega en ég vona að þetta skýrist á næstu dögum," sagði Van Nistelrooy.

„Ég hef talað við Ruud og við vitum að Real hefur áhuga á að fá hann til enda tímabilsins. Þeir hafa samt ekki komið með tilboð og þess vegna þurfum við ekkert að ræða þetta frekar," sagði Bastian Reinhardt íþróttastjóri Hamburg.

„Ruud hefur aldrei verið í betra formi og það væri mikið áfall að missa hann. Við munum því gera allt okkar til þess að halda honum þó svo að við skiljum vel hana afstöðu," sagði Reinhardt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×