Innlent

Ögmundur: „Allt á að þola ljósið. Allt!“

Ögmundur segir úrskurð Hæstaréttar hafa komið á óvart í ljósi þeirra almannahagsmuna sem eru í húfi
Ögmundur segir úrskurð Hæstaréttar hafa komið á óvart í ljósi þeirra almannahagsmuna sem eru í húfi Mynd: Stefán Karlsson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir eðlilegt að beina sjónum að þremur aðilum þegar kemur að ábyrgð vegna kosninga til stjórnlagaþings sem hefur verið úrskurðuð ógild.

Fyrstan nefnir Ögmundur þar sjálfan Hæstarétt sem dæmdi í málinu, þá löggjafarvaldið og loks framkvæmdaaðilana.

Ögmundur hélt skýrslu um kosningar til stjórnlagaþings á Alþingi þar sem hann sagði úrskurð Hæstaréttar hafa komið mjög á óvart í ljósi þeirra almannahagsmuna sem eru í húfi.

Hann segir Hæstarétt ekki hafinn yfir gagnrýni, frekar en aðrar stofnanir í samfélaginu og önnur mannanna verk, enda fari nú fram eðlileg umræða í þjóðfélaginu um niðurstöðu Hæstaréttar.

Í öðru lagi vill Ögmundur beina sjónum að löggjafarvaldinu. „Við horfum til okkar sjálfra sem erum ábyrg fyrir lögunum," segir Ögmundur. „Við hér í þessum sal þurfum að axla ábyrgð. Það er eðlilegt að horft sé til okkar," segir hann.

Lagafrumvarpið um stjórnlagaþing var undirbúið í forsætisráðuneytinu í samráði við og með aðkomu allra flokka. Frumvarpið fór síðan til umfjöllunar á Alþingi og fór fyrir allsherjarnefnd þingsins.

Ögmundur benti á að frumvarpið hafi verið samþykkt af fulltrúum allra flokka nema Sjálfstæðisflokks. Einn þingmaður hans, Óli Björn Kárason, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu en flestir þeirra sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í þriðja lagi telur Ögmundur rétt að skoða ábyrgð framkvæmdaaðilanna, landskjörstjórn, dóms- og mannréttindaráðuneytið sáluga og sveitarfélögin.

Honum finnst eðilegt að hverjum steini sé velt við og allt tekið til ítarlegrar skoðunar. „Allt á að þola ljósið. Allt!"

Ítarleg greinargerð um málið verður að finna á vef innanríkisráðuneytisins innan tíðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×