Erlent

Vetrarólympíuleikarnir 2018 haldnir í Suður-Kóreu

Ákaft var fagnað á skíðastökkspalli í Pyeongchang í dag þegar Alþjóða Ólympíunefndin tilkynnti ákvörðunina.
Ákaft var fagnað á skíðastökkspalli í Pyeongchang í dag þegar Alþjóða Ólympíunefndin tilkynnti ákvörðunina. Mynd/AP
Alþjóða Ólympíunefndin ákvað í dag að Vetrarólympíuleikarnir árið 2018 skyldu haldnir í suður-kóresku borginni Pyeongchang.

Alþjóða Ólympíunefndin kaus á milli München í Þýskalandi, Pyeongchang í Suður Kóreu og Annency í Frakklandi. Fyrirfram var talið líklegast að Pyeongchang myndi hljóta yfirburðarkosningu vegna þess að borgin hefur tvívegis sóst eftir að halda keppnina.

Pyeongchang reyndi að halda keppnina árið 2010 og 2014 en beið lægri hlut í bæði skiptin með örfáum atkvæðum. Pyeongchang fékk meira en helming allra greiddra atkvæða og því var hægt að klára kosninguna í fyrstu umferð. Ef Munchen hefði hlotið kosningu hefði borgin orðið sú fyrsta til að halda bæði sumar og vetrarólympíuleika en sumarleikarnir fóru fram þar árið 1972.

Vetrarólympíuleikarnir hafa aldrei farið fram í Suður-Kóreu en 23 ár eru síðan landið hélt sumarólympíuleikana í höfuðborginni Seoul. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×