Erlent

Mótmælendur fara hvergi

Tugir þúsunda mótmæla enn. Nærri þrjú hundruð manns hafa látið lífið. Mynd / 
Nordicphotos/AFP
Tugir þúsunda mótmæla enn. Nærri þrjú hundruð manns hafa látið lífið. Mynd / Nordicphotos/AFP

Efnahagslífið í Egyptalandi er að komast í gang að nýju eftir rúmlega vikulanga lömun. Skólar voru þó áfram lokaðir í gær. „Þetta er miklu betra en í gær eða fyrradag. Venjulegt fólk er komið á stjá og skoðar sig um. Við erum meira að segja með umferðarteppu,“ hafði AP-fréttastofan eftir Ahmed Mohammed, 65 ára verslunareiganda í Kaíró.

Átján milljónir manna búa í borginni, sem lamaðist að mestu fyrir rúmri viku. Flestum fyrirtækjum var lokað og umferð var nánast engin, því þótt fjöldi fólks hafi tekið þátt í mótmælunum þá hreiðruðu flestir um sig heima hjá sér.

Tugir þúsunda manna voru þó enn á Tahrir-torgi í Kaíró að mótmæla Hosni Mubarak forseta. Mótmælendurnir hafa ekki gert sér að góðu loforð Mubaraks um að bjóða sig ekki fram aftur og segjast margir ætla að halda kyrru fyrir á torginu þar til hann hefur sagt af sér.

Stjórnin tilkynnti í gær að laun opinberra starfsmanna yrðu hækkuð um 15 prósent í von um að sefa óánægju almennings. Eftir viðræður við helstu hópa stjórnarandstöðunnar á sunnudag lofaði stjórnin einnig því að láta rannsaka kosningasvindl og spillingu.

Þá var Wael Ghonim, framkvæmdastjóri Google í Egyptalandi, látinn laus í gær eins og stjórnin hafði lofað. Hann var einn forystumanna mótmælenda en var handtekinn 28. janúar, þremur dögum eftir að mótmælin hófust.

Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja 297 manns hafa látið lífið í átökum síðan mótmælin í Egyptalandi hófust fyrir hálfum mánuði. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka, þrátt fyrir að rólegra hafi verið yfir mótmælunum allra síðustu dagana.

Meðal stjórnarandstöðuhópanna, sem stjórnin ræddi við á sunnudag, er Bræðralag múslima, sem í kjölfarið lýsti því yfir að það krefjist þess ekki lengur að Mubarak segi af sér fyrir kosningarnar, sem til stóð að halda í haust.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×