Innlent

Kanna skaðabótaskyldu bankaráðsins

Kjartan Gunnarsson, Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason eru krafðir svara vegna málsins. Björgólfur Guðmundsson er gjaldþrota og er því látinn vera.
Kjartan Gunnarsson, Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason eru krafðir svara vegna málsins. Björgólfur Guðmundsson er gjaldþrota og er því látinn vera.
Slitastjórn og skilanefnd Landsbankans hafa sent fyrr­verandi bankastjórum bankans og fjórum fulltrúum í bankaráðinu bréf þar sem óskað er skýringa á þætti þeirra í meintu misferli með fé bankans við hrun hans. Fólkinu er jafnframt greint frá því að hugsanlega sé talið tilefni til bótakrafna á hendur því.

Bréfið var sent í byrjun vikunnar á bankastjórana Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjáns­son og fjóra sem sátu í bankaráðinu við hrunið í október 2008; Andra Sveinsson, Kjartan Gunnarsson, Svöfu Grönfeldt og Þorgeir Baldursson.

„Í þessum bréfum er verið að koma á framfæri mögulegum kröfum og sjónarmiðum og óska skýringa á ákveðnum atriðum sem hafa komið í ljós við rannsóknir sem hafa farið fram innan bankans,“ segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndarinnar og slitastjórnarinnar. „Svo er beðið eftir andmælum eða viðbrögðum frá þessum aðilum. Síðan verður það metið í bankanum hvort það verður gripið til einhverra frekari aðgerða.“

Björgólfur Guðmundsson, aðaleigandi bankans og formaður bankaráðsins, fékk ekki bréf af þessu tagi. „Það er fyrst og fremst út af því að hann hefur ekki forræði á sínum málum lengur þar sem bú hans er í gjaldþrota­skiptum,“ segir Páll. „Auk þess hefur bankinn þegar lýst eitthvað um tíu milljarða króna kröfu á hans bú, þannig að það var ekki talin sérstök ástæða til að senda honum svona bréf.“

Hin meintu brot sem nú er kannað hvort sexmenningarnir beri ábyrgð á eru hin sömu og sérstakur saksóknari réðst í aðgerðir vegna fyrir skemmstu. Annars vegar er þar um að ræða fimmtán milljarða millifærslur út af reikningum Landsbankans í Seðlabankanum 6. október 2008, til MP banka og Straums. Síðastnefndu fjármálafyrirtækin höfðu átt í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann ásamt Lands­bankanum.

Hitt málið snýst um 20 milljarða kaup Landsbankans á bréfum í Landsbankanum sjálfum og Straumi út úr Landsvaka, verðbréfasjóði bankans, sama dag.

Páll segir að þetta sé í fyrsta sinn sem slitastjórn eða skilanefnd bankans aðhefst eitthvað af þessu tagi gagnvart bankaráðinu. „Formlega held ég að við höfum ekki beint neinu að þeim öðru,“ segir hann.

stigur@frettabladid.is
Svafa Grönfeldt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×