Fótbolti

Messi: Mín markmið eru ekki að setja einhver met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Dani Alves fagna marki þess fyrrnefnda í gær.
Lionel Messi og Dani Alves fagna marki þess fyrrnefnda í gær. Mynd/AP
Lionel Messi, varð í gær annar markahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi þegar hann skoraði tvö mörk í 5-0 sigri liðsins á BATE Borisov í Meistaradeildinni. Hann deilir nú öðru sætinu með Ladislau Kubala sem skoraði líka 194 mörk fyrir Barca á sínum tíma.

Leikmaðurinn sjálfur gerði ekki mikið úr þessum áfanga og sagðist ekkert vera að hugsa um að bæta markamet félagsins en Cesar Rodriguez skoraði 235 mörk fyrir Barcelona á sínum tíma.

„Mín markmið eru ekki að ná Cesar eða að setja einhver met," sagði þessi 24 ára knattspyrnusnillingur sem getur ekki hætt að skora.

„Mitt markmið er að standa mig vel í hverjum leik. Ég veit að ég er að endurskrifa söguna en vonandi get ég gert enn betur," sagði Lionel Messi.

Lionel Messi hefur skorað átta mörk í fimm leikjum í spænsku úrvalsdeildinni það sem af er á þessari leiktíð og þar af hefur hann skorað tvisvar sinnum þrennu. Messi er alls með 14 mörk og 10 stoðsendingar í tíu leikjum Barcelona í öllum keppnum á tímabilinu til þessa.

Xavi Hernández hrósaði líka Messi eftir leikinn í gær. „Það sem Messi er að afreka er einstakt því hann er að ná þessum metum með því að spila fyrir liðið," sagði Xavi og David Villa var líka ánægður með Argentínumanninn.

„Messi er ótrúlegur og heldur bara áfram að verða betri. Við erum bara ánægðir að geta hjálpað honum aðeins," sagði David Villa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×