Erlent

Búist við átakaþingi vestanhafs

John Boehner er nýr forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Fréttablaðið/AP
John Boehner er nýr forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Fréttablaðið/AP
Repúblikanar tóku í gær við stjórnartaumunum í fulltrúadeild bandaríska þingsins á ný, eftir kosningasigur fyrir tveimur mánuðum. John Boehner settist í stól forseta fulltrúadeildarinnar í stað demókratans Nancy Pelosi, sem var fyrst kvenna til að taka við embættinu.

Búist er við átökum á komandi misserum þar sem nýr meirihluti mun gera það að sínu fyrsta verki að leggja til að ný heilbrigðislöggjöf verði lögð af.

Það mun þó aldrei verða annað en málamyndagjörningur þar sem slíkt mun aldrei komast í gegnum öldungadeildina því demókratar héldu meirihluta þar.

Margir repúblikanar eru í hinum svokallaða Teboðs-hópi og gætu orðið Boehner erfiðir í mörgum umdeildum málum þar sem þörf verður á málamiðlunum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagðist búast við því að nýr meirihluti myndi fyrst um sinn reyna að höfða til harðlínumanna. „En ég er viss um að þeir átta sig á því að okkar hlutverk er að stýra landinu og skapa störf fyrir landsmenn.“- þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×