Innlent

Ríkisstjórn Íslands líkt við Hugo Chavez

Ríkisstjórn Íslands var á Alþingi í dag líkt við Hugo Chavez í Venesúela. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ítrekaði þar enn að eignarnám á HS Orku væri ekki útilokað.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir því að forsætisráðherra útskýrði fyrir þjóðinni hvort eignarnámi yrði beitt gagnvart HS Orku. Hann sagði hugmyndina um eignarnám, með yfir 30 milljarða króna kostnaði fyrir skattgreiðendur, vera fullkomlega galna, og kvaðst vænta þess að forsætisráðherra tæki af allan vafa um að sú leið kæmi ekki til greina.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði eignarnám ekki á dagskrá en útilokaði það ekki. Enginn ábyrgur stjórnmálamaður útilokaði eignarnám, kæmi sú staða upp að skilgreindir almannahagsmunir yrðu ekki varðir með öðrum leiðum. Eðli málsins samkvæmt yrði slíkt nauðvörn fyrir almannahag, og kvaðst Jóhanna vænta þess að málshefjandi útilokaði slíkt ekki fyrirfram.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði að verkefnið væri að færa fyrirtækið aftur til almennings í landinu með þeim leiðum sem færar væru. Markmiðið væri skýrt og vilji ríkisstjórnarinnar lægi fyrir.

Stjórnarandstæðingar töldu erfitt að átta sig á hver væri stefna ríkisstjórnarinnar. Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki, sagði að annars vegar væru það þeir sem vildu þjóðnýtingu í anda Hugo Chavez í Venesúela og hins vegar hægri kratismi sem þekktist víða um heim. Eftir ræður forsætisráðherra og umhverfisráðherra væru menn engu nær um hver væri stefna ríkisstjórnarinnar.

Bjarni Benediktsson sagði að vinstri sósíalistar væru að ná undirtökum í þjóðfélagsumræðunni. Fremst í flokki færi forsætisráðherra, sem þó vildi berjast fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið og möguleikum erlendra aðila til að kaupa nýtingarfyrirtækin í sjávarútveginum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×