Fótbolti

Real Madrid búið að reka Valdano

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Á meðan allt lék í lyndi. Jose Mourinho og Jorge Valdano.
Á meðan allt lék í lyndi. Jose Mourinho og Jorge Valdano. Nordic Photos / AFP
Stjórn Real Madrid kom saman í kvöld og ákvað að reka framkvæmdarstjórann Jorge Valdano úr sínu starfi hjá félaginu. Talið er að það styrki stöðu Jose Mourinho knattspyrnustjóra talsvert.

„Við höfum ákveðið að slíta samstarfi félagsins við Jorge Valdano," sagði Florentino Perez, forseti félagsins, við blaðamenn í Madríd í kvöld.

Það sló í brýnu á milli Valdano og Mourinho þegar að sá fyrrnefndi gerði athugasemdir við þá ósk Mourinho að kaupa annan framherja til félagsins eftir að Gonzalo Higuain meiddist í haust.

Mourinho vill fá fullt vald yfir þeim málum sem snúa að knattspyrnunni hjá félaginu og því ákvað Perez og stjórn félagsins að breyta skipuriti félagsins.

„Mourinho krafðist fulls sjálfstæðis í sínu starfi líkt því sem á sér stað hjá enskum knattspyrnufélögum. Ég tel að félagið þurfi á slíkri endurskipulagningu að halda," sagði Perez enn fremur.

„Við sömdum við besta þjálfara heims. Við viljum vera vissir um að þegar hann fer einn daginn og við fáum annan þjálfara í heimsklassa sé þetta kerfi til staðar."

Valdano staðfesti síðar í viðtali við fjölmiðla að hann hefði ekki rætt við Mourinho í langan tíma. „Við heilsumst kurteisislega en hann kaus að ræða við aðra en mig."

Valdano er þó sáttur við að Mourinho verði áfram. „Ég tel að það sé hollt fyrir félagið að hann verði áfram, sérstaklega fyrir félag sem hefur skort stöðugleika undanfarin ár. Ég tel að hann sé góður í sínu starfi og finnst eðlilegt að hann haldi áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×