Erlent

Þúsundir íbúa Brisbane flýja flóð

MYND/AP

Flóðin sem hrellt hafa íbúa Ástralíu síðustu daga virðast aðeins færast í aukana. Lögreglan í Brisbane í Queensland, þriðju stærstu borg Ástralíu, hvetur nú íbúa í úthverfum borgarinnar til þess að yfirgefa heimili sín þar sem flóðgarðar séu við það að rofna.

Vatnsborðið hefur verið að hækka hratt í ám í borginni og einn eftirlitsmaður sagðist í gær hafa mælt hækkun á vatnsborði upp á einn og hálfan metar á aðeins einni klukkustund. Að minnsta kosti níu létust í flóðunum í gær í bænum Toowoombe í nágrenni Brisbane og er 70 manns saknað.

Flóðið skall á eins og þruma úr heiðskýru lofti og var mun vatnsmeira en búist hafði verið við. Brisbane borg hefur hingað til sloppið að mestu við flóðin en nú er óttast að vatnselgurinn geti kaffært allt að 6500 byggingar í borginni í dag og á morgun. Ástandið er þegar farið að hafa mikil áhrif og eru matvörur að tæmast úr búðum borgarinnar.

Yfirvöld dreifa sandpokum til íbúa sem eru hvattir til að gera sitt besta til að forða heimilum sínum frá eyðileggingunni. Flóðin eru þau mestu í Ástralíu í 50 ár og er flóðasvæðið stærra en Frakkland og Þýskaland saman­lagt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×