Erlent

Flóðin í hámarki í Queensland

Miðborg Brisbane er á floti.
Miðborg Brisbane er á floti. MYND/AP

Flóðin í Queensland eru nú í hámarki og hafa þrír fjórðu hlutar fylkisins farið undir vatn. Anna Bligh fylkisstjóri segir að um mestu náttúruhamfarir í sögu hins Ástralska fylkis sé að ræða og að tugir þúsunda manna sjái nú fram á erfiða tíð við að lagfæra skemmdir eftir flóðin. Stórir hlutar stærstu borgar fylkisins, Brisbane, fóru undir vatn í gær og í nótt og segir Bligh að nú taki við uppbygging lík þeirri sem ráðast þurfi í eftir að stríð hefur geisað. Verst er ástandið í bænum Toowoomba þar sem hvert einasta hús er svo gott sem ónýtt.

Fjórtán hafa látist svo vitað sé, en leitað er að 70 og óttast yfirvöld að sú tala eigi eftir að hækka mikið. Í Brisbane höfðu menn óttast að áin sem rennur í gegnum borgina myndi slá fyrra met í vatnshæð en það gerðist ekki. Árið 1974 hækkaði áin um 4.50 metra en í nótt náði áin aðeins 4.46 metra dýpt. Þrátt fyrir það eru um 26 þúsund heimili í borginni umlukin vatni. 120 þúsund heimili eru án rafmagns og munu margir dagar líða áður en hægt verður að koma því á að nýju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×