Erlent

Ákærð fyrir ólöglegar fegrunaraðgerðir - lokaði sárum með lími

Whalesca Castillo á leiðinni í dómsal.
Whalesca Castillo á leiðinni í dómsal.

Alríkislögreglan hefur handtekið 36 ára konu sem er ákærð fyrir ólöglegar fegrunaraðgerðir í New York borg. Konan, sem heitir Whalesca Castillo, var búin að breyta íbúðinni sinni í litla skurðstofu.

Samkvæmt lögreglumanni, sem New York Post ræddi við, þá var eini munurinn á venjulegri læknastofu og íbúð Castillo, nuddbekkur sem hún notaði í staðinn fyrir skurðborð.

Castillo er meðal annars ákærð fyrir að sprauta sílikoni í konur sem hún pantaði frá dómíníska lýðveldinu. Síðan lokaði hún sárunum með lími eða „Krazy Glue".

Upp komst um svikastarfsemi Castillo, sem er ólétt, þegar kona sem hún var að framkvæma aðgerð á missti meðvitund eftir að hún hafði sprautað efninu inn í hana. Konan var í kjölfarið flutt á spítala þar sem hún upplýsti um starfsemina.

Castillo vann á snyrtistofu og bauð konum ódýrt bótox þar hefðu þær áhuga. Konan er grunuð um að hafa stundað starfsemina síðan árið 2009. Verði hún fundin sek getur hún átt von á þriggja ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×