Erlent

Schwarzenegger snýr aftur - eins og hann lofaði

Arnold Schwarzenegger hefur tilkynnt að hann hyggist snúa aftur til fyrri starfa. Vöðvatröllið var á árum áður ein skærasta kvikmyndastjarnan í Hollywood en eftir að hann náði kjöri sem ríkisstjóri Kalíforníu hefur hann að mestu látið kvikmyndaferilinn sitja á hakanum.

Nú hefur hann lokið keppni sem ríkisstjóri eftir tvö kjörtímabil og hyggur á landvinninga á hvíta tjaldinu. Í Twitter skilaboðum sem karlinn sendi frá sér í gær segist hann hafa gefið umboðsmanni sínum grænt ljós á að fara á ný að taka tilboð um kvikmyndaleik alvarlega.

Eftir að Arnold hætti sem ríkisstjóri hafa menn velt því fyrir sér hvort hann myndi snúa aftur til fyrri starfa eða hvort hann ætlaði sér að bjóða fram á landsvísu til þingkosninga eða til setu í Öldungadeild bandaríkjaþings. Nú virðist hann ætla að einbeita sér að kvikmyndaleiknum og kætast þá væntanlega allir aðdáendur hasarmynda af gamla skólanum, sem hafa verið í hálfgerðri lægð frá því tröllið dró sig í hlé.

Svo er bara að sjá hvernig tortímandanum gengur að eiga við nýju hasarhetjurnar á borð við Jason Bourne, sem reiða sig meira á hugvitið en vöðvamassann.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×