Fótbolti

Messi búinn að vinna fimm leiki í röð á móti Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Mynd/AP
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo eru tveir af allra snjöllustu knattspyrnumönnum heims og á miðvikudaginn mættust þeir í fyrsta sinn með landsliðum sínum þegar Argentína vann 2-1 sigur á Portúgal. Messi hefur kosinn besti knattspyrnumaður heims undanfarin tvö ár og hann hefur einnig haft betur í leikjum á móti Ronaldo í að verða þrjú ár.

Lionel Messi lagði upp fyrra markið og skoraði sigurmarkið í sigrinum á móti Portúgal í fyrrakvöld en Ronaldo hafði jafnað leikinn í millitíðinni. Þetta var fimmti sigur liða Messi í röð á liðum Ronaldo.

Lið Messi hafa unnið alla leiki á móti liðum Ronaldo síðan að Manchester United vann 1-0 sigur á Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í apríl 2008.

Árið eftir vann Barcelona 2-0 sigur á United í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í maí 2009 og Barcelona hefur síðan unnið alla þrjá leiki sína á móti Real Madrid síðan að félagið keypti Cristiano Ronaldo frá United.

Lionel Messi hefur skorað þrjú mörk í þessum fimm leikjum en mark Ronaldo á miðvikudaginn var það eina sem hann hefur skorað á móti liði með Messi innanborðs.

Síðustu fimm leikir Lionel Messi og Cristiano Ronaldo:

27. maí 2009 (Meistaradeildin) Man. United-Barcelona 0-2

29. nóvember 2009 (Spænska deildin) Barcelona-Real Madrid 1-0

10. apríl 2010 (Spænska deildin) Real Madrid-Barcelona 0-2

29. nóvember 2010 (Spænska deildin) Barcelona-Real Madrid 5-0

9. febúar 2011 (Vináttulandsleikur) Argentína-Portúgal 2-1






Fleiri fréttir

Sjá meira


×