Erlent

Kaíró: Herinn styður valdaframsal Mubaraks

Hosni Mubarak.
Hosni Mubarak.

Egypski herinn hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að hann styðji þá ákvörðun Mubaraks forseta að sitja áfram en framselja völd sín til Suleimans varaforseta. Búist er við milljónum mótmælenda í Kairó síðar í dag en allt er á suðupunkti í landinu eftir að Hosni Mubarak forseti tilkynnti í sjónvarpsræðu að hann ætlaði ekki að segja af sér fyrr en kosið verður í september.

Mikil eftirvænting var í Egyptalandi eftir að tilkynnt var um væntanlega ræðu Mubaraks í gær. Sumir miðlar stukku til og sögðust hafa heimildir fyrir því að Mubarak ætlaði að tilkynna um afsögn sína og sama mátti skilja á tilkynningum frá hernum og á orðum forstóra leyniþjónustu CIA í Bandaríkjunum. Annað kom hinsvegar á daginn og sagðist Mubarak ætla að sitja áfram, þótt hann myndi framselja hluta valds síns til varaforsetans Suleimans.

Fastlega er búist við því að mótmælin haldi áfram í dag og búast menn við miklum mannfjölda í Kaíró í dag að loknum föstudagsbænum múslima. Þjóðarleiðtogar á borð við Barack Obama hafa dregið það í efa að valdaafsal Mubaraks sé nægilega stórt skref, en óljóst er enn hvaða völdum Mubarak hefur afsalað sér. Þá er Suleiman varaforseti helsti bandamaður hans til áratuga og því álíta margir að Mubarak haldi enn um valdataumana í raun þótt Suleiman sé sagður ráða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×