Erlent

Börn fara sjö sinnum í röntgenmyndatöku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kona á leið í CT skanna. Mynd/ AFP.
Kona á leið í CT skanna. Mynd/ AFP.
Hvert barn fer sjö sinnum í röntgenmyndatöku áður en það nær 18 ára aldri, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Þessi mikla notkun röntgenmyndavéla veldur áhyggjum því geislarnir geta verið krabbameinsvaldandi. Í flestum tilfellum eru notuð röntgentæki með væga geisla, en því sterkari sem geislarnir eru þeim mun meiri hætta er á krabbameini.

Í rannsókninni kemur fram að röntgenmyndatökur af brjósti, höndum og fótum eru algengastar. Um 42% barna sem voru könnuð höfðu að minnsta kosti farið í eina röntgenmyndatöku og um 25% höfðu að minnsta kosti farið í tvær myndatökur á því þriggja ára tímabili sem rannsóknin náði til. Rannsóknin náði ekki til myndataka vegna tannviðgerða.

Um átta prósent barnanna höfðu farið í svokallað sneiðmyndatæki, eða CT skanna, og um 3% barna höfðu farið oftar en einu sinni í slíkt tæki. Sterkir geislar eru notaðir í slíkum tækjum. „Þetta veldur áhyggjum," segir Dr. Adam Dorfman, hjá Læknaháskólanum í Michigan, sem stjórnaði rannsókninni. „Börn eru án vafa að fara oftar í rannsóknir sem þessar nú til dags en áður," sagði Dorfman. Associated Press fréttastofan segir að útgeislun hafi aukist margfalt á undanförnum árum vegna aukinnar notkunar svokallaðra CT skanna.

Rannsóknin á röntgengeislanotkuninni verður birt í vísindaritinu Archives of Pediatrics and Adolescent Medicine á mánudag. Talið er að um sé að ræða umfangsmestu rannsókn á notkun röntgengeisla í Bandaríkjunum. Í rannsókninni var hins vegar ekki kannað sérstaklega hversu oft röntgengeislar eru notaðir að óþörfu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×