Innlent

Mótfallin sölu á Gagnaveitu Reykjavíkur

Helga Arnardóttir skrifar
Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi Vinstri Grænna í stjórn Orkuveitunnar leggst alfarið gegn hugmyndum annarra stjórnarmanna í Orkuveitunni um að selja Gagnaveitu Reykjavíkur og það keyri einnig gegn vilja borgarráðs og borgarstjórnar. Gagnaveitan eigi að vera á hendi hins opinbera til að tryggja jafnan aðgang að þjónustu.

Í kvöldfréttum í gær var greint frá því að vilji er meðal helstu stjórnenda Orkuveitunnar að selja Gagnaveitu Reykjavíkur sem er ein verðmætasta eign Orkuveitunnar.  Haraldur Flosi Tryggvason stjórnarformaður sagði hana ekki á söluskrá þar sem hún væri flokkuð sem kjarnastarfsemi.  Þó sagðist hann mundu líta það jákvæðum augum ef hún yrði sett í sölumeðferð. Í björgunarpakka Orkuveitunnar var lagt til að eignir hennar yrðu seldar fyrir tíu milljarða. Kjartan Magnússon stjórnarmaður Orkuveitunnar og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill eindregið selja Gagnaveituna og segir ekki raunhæft að markmiðið náist nema veitan sé þar innifalin. Sóley Tómasdóttir stjórnarmaður í Orkuveitunni og borgarfulltrúi  VG er alfarið mótfallin þessum hugmyndum.

„Mér og okkur vinstri grænum hugnast ekki að selja Gagnaveitu Reykjavíkur og ekki bara okkur heldur get ég ekki séð að borgarráð eða borgarstjórn hafi samþykkt það.  Skýrt er að Gagnaveita Reykjavíkur er skilgreind sem kjarnastarfssemi fyrirtækisins.  Þess vegna furða ég mig á því að stjórnarmenn í Orkuveitu Reykjavíkur sem sitja í umboði borgarstjórnar skuli vera að leika sér með þessa hugmynd," segir Sóley.  

„Það er alveg ljóst að aðgengi að upplýsingum fer að verða að jafnmikilli grunnþjónustu  og aðgengi að köldu og heitu vatni í Reykjavík. Ég vil meina að gagnaveita eigi að vera á höndum hins opinbera til að tryggja jafnræði og að allir fái þá þjónustu sem þarf."  

„Ég gagnrýndi það strax í upphafi þegar björgunarpakkinn var kynntur hversu mikið átti að selja af eignum Orkuveitunnar. Ég held að það sé tiltölulega óraunsætt plan og tel að við getum ekki selt eignir fyrir tíu milljarða eins og gert hefur verið ráð fyrir," segir Sóley. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×