Innlent

Vill heiðra lögreglumenn úr Gúttóslagnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreggviður Jónsson vill heiðra minningu lögreglumannanna sem vörðust í Gúttóslagnum. Mynd/ Alþingi
Hreggviður Jónsson vill heiðra minningu lögreglumannanna sem vörðust í Gúttóslagnum. Mynd/ Alþingi
Hreggviður Jónsson, fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og Borgaraflokksins, segir að lögregluþjónar hafi bjargað bæjarstjórn Reykjavíkur og lýðræðinu í landinu, með hreysti sínu og hugrekki, þann 9. nóvember 1932 í Gúttóslagnum.

Hann segir að við störf sín þennan dag hafi margir lögreglumannanna hlotið varanlegan líkamlegan skaða og sumir aldrei orðið vinnufærir aftur. Þeir hafi þeir aldrei fengið viðurkenningu fyrir störf sín. Jafnframt hafi sumir lögreglumannanna lent í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og gátu ekki framfært fjölskyldu sinni eftir þetta.

Hreggviður segir að í Gúttóslagnum hafi verið gerð skipuleg aðför að lýðræðinu í landinu af landráðamönnum, sem verði þeim, sem fyrir henni stóðu, til ævarandi skammar. „Tilræðismennirnir sluppu við dóma, vegna hræðslu yfirvalda á Íslandi, við þá," segir Hreggviður í bréfi sem hann sendir til borgarstjórnar Reykjavíkur.

Hreggviður vill að þann 9. nóvember 2012 verði afhjúpuð minningartafla um lögregluþjónana, sem tóku þátt í aðgerðuum vegna Gúttóslagsins, í Ráðhúsinu í Reykjavík, með nöfnum þeirra allra. Þangað verði boðið afkomendum þeirra og félögum í lögreglunni í Reykjavík. Hreggviður segist telja það vera skyldu sína að koma með þessa áskorun til borgarstjórnar Reykjavíkur eftir lestur sinn á Sóvét-Ísland óskalandið eftir Þór Whitehead en hún kom út fyrir fáeinum mánuðum.

Hreggviður leggur til að á töflunni standi:

Þeir björguðu bæjarstjórn Reykjavíkur og lýðræðinu í landinu, með hreysti sínu og hugrekki, þann 9. nóvember 1932 í Gúttóslagnum.

Borgarbúar þakka ykkur fyrir vaska framgöngu á ögurstund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×