Erlent

Þrettán hafa fallið í Egyptalandi

Þrettán manns hafa fallið og um tólf hundruð særst í átökum mótmælenda og útsendara ríkisstjórnar Hosni Mubaraks forseta Egyptalands. Forsætisráðherra landsins hefur beðist afsökunar á árásum á mótmælendur og lofar rannsókn.

Hosni Mubarak hangir áfram í valdataumunum þótt milljónir landa hans krefjist þess að hann segi nú þegar af sér. Til harða átaka kom milli mótmælenda og stuðningsmanna forsetans í Kairó seinnipartinn í gær og nótt. Hópar stuðningsmanna forsetans réðst að mótmælendum með bareflum, grjótkasti og molatofkokteilum og reyndi að ná Frelsistorginu á sitt vald.

Nú þykir sannað að þeir sem réðust á mótmælendur voru margir málaliðar forsetans eða óeinkennisklæddir lögreglumenn. Skotvopnum var beitt og nú hafa þrettán manns látið lífið og yfir tólf hundruð manns særst í átökunum. Herinn sem hefur að mestu haldið sig til hlés í mótmælunum gekk á milli stríðandi fylkinga í morgun og hefur reynt að loka aðgangi fólks að torginu.

Yfirmenn hersins hafa fordæmt ofbeldi stuðningsmanna forsetans og hótað að skjóta á þá láti þeir ekki af árásum sínum. Ahmed Shafiq forsætisráðherra baðst afsökunar árásunum á mótmælendur í dag og viðurkenndi að svo liti út fyrir að þær væru skipulagðar. Hann lofaði rannsókn á málinu og að þeir sem bæru ábyrgð á árásunum yrðu dregnir fyrir dómstóla.

Omar Suleiman nýskipaður varaforseti lofaði því í dag að sonur Mubaraks muni ekki bjóða sig fram í forsetakosningunum í september og sagði að viðræður væru þegar hafnar við stjórnarandstöðuöfl í landinu. Hvort þetta dugar til að lægja öldurnar í landinu er alls óvíst. Enn er tekist á á götum Kairó og annarra borga í landinu og mótmælendur standa enn á þeirri kröfu sinni að Mubarak hafi frest til morgundagsins til að segja af sér.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×