Innlent

Jóhanna hlýtur að íhuga stöðu sína

Ólöf Nordal þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Ólöf Nordal þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Ólöf Nordal þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði á Alþingi í dag að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hljóti að íhuga stöðu sína eftir úrskurð Hæstaréttar að kosning til stjórnlagaþings sé ógild.

Hún sagði að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem vinnubrögð ríkisstjórnarinnar séu óvönduð og tók Magma-málið svokallaða sem dæmi. „Þetta er enn eitt dæmið um þær ógöngur sem stjórn þessa lands er komin í, flestir myndu íhuga sína stöðu alvarlega."

Hún sagði að pólitísk óvissa í landinu væri mikil og eftir þennan úrskurð Hæstaréttar væri hún enn meiri.

Ólöf sagði einnig að framkvæmd stjórnlagaþingsins hafi ekki verið nógu vel unnin. „Það var farið af stað með alltof miklu offorsi í þessar lagasetningu og fara í tilraunastarfsemi þegar verið var að fara í almenna kosningu. Ég held að í hefðbundnu lýðræðisríki, sem ég held að Íslands sé, hljóti forsætisráðherra að íhuga þá stöðu sem upp er komin í þessu máli."

Þá fór hún fram á að Jóhanna skyldi mæta í þingsal á morgun og gera þinginu grein fyrir því hvað hún ætlar að gera í þeirri stöðu sem upp er komin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×