Innlent

Stjórnarþingmaður: Landskjörstjórn segi af sér

Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að landskjörstjórn verði að segja af sér í kjölfar þess að Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings. Að hans mati er eina færa leiðin í málinu sú að kosið verði aftur til stjórnlagaþings, og þá gangi ekki að sama kjörstjórn komi að framkvæmdinni.

„Þeir sem bera ábyrgð á framkvæmd sem mistókst, framkvæma ekki aftur þegar sjálf stjórnarskráin er í húfi.." segir Sigmundur meðal annars á bloggi sínu. Landskjörstjórn fundaði um málið fram á kvöld í gær en meðlimir hennar hafa enn ekki tjáð sig um ákvörðun Hæstaréttar.

Sigmundur Ernir segir einnig að þeir stjórnmálaflokkar sem allra mest hafi talað um ábyrgð þegar efnahagshrunið reið yfir landsmenn, verði að horfa í eigin barm þegar þeim sjálfum verður á í messunni. „Og allra síst mega þeir líta undan, hvað þá benda á aðra."

Að hans mati er ákvörðun Hæstaréttar ekki réttinum sjálfum að kenna, heldur löggjafa- og framkvæmdavaldinu. „Sjálf lagasetningin var ekki nægilega ígrunduð. Þingmönnum sem að henni stóðu ber að biðja þjóð sína afsökunar. Svo á einnig við um innanríkisráðherra. Hann hlýtur að lýsa ábyrgð á hendur sér; sjálft framkvæmdavaldið hélt hér enda fastast um valdataumana."

Blogg Sigmundar má finna hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×