Innlent

Gera lítið án lagaheimildar

Ekki hefur verið ákveðið hvernig fjárheimildir netöryggishóps Póst- og fjarskiptastofnunar verða í framtíðinni.
Nordicphotos/AFP
Ekki hefur verið ákveðið hvernig fjárheimildir netöryggishóps Póst- og fjarskiptastofnunar verða í framtíðinni. Nordicphotos/AFP

Líklega þarf að breyta lögum til að netöryggishópur Póst- og fjarskiptastofnunar sem stofnaður verður á árinu geti sinnt hlutverki sínu. Þetta kom fram í erindi Þorleifs Jónssonar, forstöðumanns tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar á ráðstefnu um netöryggi í síðustu viku.

„Hópurinn getur spriklað en lítið gert án lagaheimilda,“ sagði Þorleifur. Skilgreina þurfi ábyrgð hópsins og umboð í lögum áður en hann tekur til starfa.

Ríkisstjórnin ákvað í nóvember síðastliðnum að koma ætti net­öryggishópi á laggirnar, og hefur undirbúningur að stofnun hans staðið síðan, sagði Þorleifur. Stefnt er að því að hópurinn verði stofnaður á árinu og taki til starfa um næstu áramót.

Hlutverk hópsins verður meðal annars stefnumótun í netöryggismálum, áfallastjórnun og uppbygging innviða. Þá mun hann hafa með höndum vernd og fræðslu almennings.

Þorleifur benti á að ekki sé komið á hreint hvernig fjárheimildir netöryggishópsins verði. Póst- og fjarskiptastofnun hafi fengið leyfi til að nota ónýttar fjárheimildir til að stofna hópinn, en fyrir næsta ár þurfi að ákveða hvernig kostnaður við varnirnar verði greiddur. Í ljósi þess að hægt sé að auka öryggi landsins verulega sé peningum til þessa málaflokks vel varið. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×