Fótbolti

Zlatan stólar á reynsluna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic segir að lið sitt, AC Milan, sé sigurstranglegra í rimmu liðsins gegn Tottenham í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Liðin mætast á San Siro í Mílanó í kvöld en Zlatan er á sínu fyrsta tímabili með AC Milan síðan hann kom frá Barcelona í sumar. Honum hefur gengið vel, rétt eins og liðinu sem er í efsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég nýt þess að spila með liðinu en það mikilvægasta er að það vinni leikinn í kvöld - ekki að ég skori," sagði hann.

„Milan býr yfir mikilli reynslu af Evrópukeppnum og ég tel að það gefi okkur forskot," bætti hann við. „Margir af leikmönnum liðsins hafa unnið Meistaradeildina áður og það gefur okkur öllum sjálfstraust."

„Þetta verður mikilvægur leikur en við þurfum einnig að hafa í huga að þetta er aðeins fyrri leikurinn í rimmunni. Tottenham er stórt lið og hefur sýnt hvað það getur í ensku úrvalsdeildinni."

„Ég held að þetta sé lið sem er sífellt að vaxa. Þessir strákar eru nú að uppskera laun erfiðisins og þetta verður alls ekki auðvelt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×