Innlent

Auðvelt að leysa út lyf annarra

salome@365.is skrifar
Það virðist vera tiltölulega auðvelt fyrir óprúttna aðila að komast yfir lyfseðilsskyld lyf, ef marka má sögu Þóreyjar Hilmarsdóttur, sem fékk ekki útleystan lyfseðil sinn fyrr í dag þar sem hann hafði þegar verið útleystur nokkrum dögum áður.

"Þegar ég spurði hvernig þetta væri hægt þá fékk ég þau svör að hver sem er, ef hann hefur kennitöluna þína, getur komið í apótekið og náð í lyfin sem þú átt." segir Þórey. Hún segist furðulostin, sérstaklega í ljósi allrar þeirrar umræðu sem fram hefur farið undanfarið um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum. "Ef þú fréttir um einhvern sem er á Rítalíni geturðu farið í heimabankann, fengið kennitölu viðkomandi og farið svo í næsta apótek og tékkað hvort það sé á lyfjagáttinni."

Lyfjagáttin er rafrænt lyfseðlakerfi sem gerir það að verkum að sjúklingur þarf ekki að hafa lyfseðil meðferðis, þar sem þeir eru geymdir í tölvukerfum apótekanna. Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að samkvæmt reglugerð þurfi að framvísa skilríkjum þegar eftirritunarskyld lyf eru sótt. Séu lyf útleyst fyrir hönd annarra þurfi viðkomandi einnig að framvísa skilríkjum og það sé skráð í kerfið hver sótti lyfin.

Lyfjafræðingur hjá bílaapótekinu sagði hinsvegar að framkvæmdin væri sú að hægt væri að leysa út lyf fyrir hönd annarrar manneskju að því gefnu að viðkomandi gæti gefið upp kennitölu þess sem skráður væri á lyfseðilinn, auk þess sem viðkomandi þyrfti að vita hvaða lyf hann væri að sækja. Hann sagði það til að mynda algengt að hjón sæktu lyf hvors annars, en í tilfell Þóreyjar var það fyrrverandi eiginmaður hennar sem leysti út lyfin og eru þau enn skráð á sama heimilisfang að sögn apóteksins.

Rannveig Gunnarsdóttir sagði að eftirlitssvið Lyfjastofnunar væri með málið til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×