Innlent

Staðan aldrei verri - 165 fangar í 150 plássum

Sunna Valgerðardóttir skrifar
"Við tvímennum í öllum fangelsum," segir forstjóri Fangelsismálastofnunar.
"Við tvímennum í öllum fangelsum," segir forstjóri Fangelsismálastofnunar.
Staðan í fangelsismálum á Íslandi hefur aldrei verið verri. Tvímennt hefur verið í afplánunarklefum í öllum fangelsum. Rúmlega 300 manns eru á biðlista eftir plássi.

Alls eru 165 fangar í afplánun í fangelsum ríkisins í dag. Heildarfjöldi fanga er 189, þar af 177 karlar og 12 konur. Gert er ráð fyrir 150 afplánunarplássum í þeim 6 fangelsum sem starfrækt eru.

Rúmlega 300 dæmdir einstaklingar eru á boðunarlista fyrir afplánun og eru dæmi um það að mönnum sé vísað frá þegar þeir mæta í afplánun. Suma þarf þá að vista á lögreglustöðvum.

Þegar fangelsið á Hólmsheiði verður opnað er gert ráð fyrir að Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg og Kvennafangelsinu á Kópavogsbraut verði lokað. Bæði hafa verið rekin um árabil á undanþágu frá heilbrigðiseftirlitinu. Fangelsin tvö eru með afplánunarpláss fyrir 28 fanga.

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir bráðliggja á því að byggja og opna nýtt fangelsi.

"Við tvímennum í öllum fangelsum," segir Páll. "Þá er annað rúm fært inn í klefa þar sem einungis er gert ráð fyrir einum fanga. Þetta eru klefar sem eru hannaðir fyrir einn einstakling og verður þannig oft á tíðum mjög þröngt, sem auðvitað er ekki boðlegt fyrir nokkurn mann."

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að óvenjumargir hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald að undanförnu og sagði Páll stöðuna nú keyra langt úr hófi fram. Alls eru 24 fangar í gæsluvarðhaldi í dag, þar af 22 vistaðir í fangelsum ríkisins. Tíu gæsluvarðhaldsklefar eru í fangelsinu á Litla-Hrauni.

Í fangelsinu á Hólmsheiði er gert ráð fyrir 56 klefum. Þar verður kvennadeild, skammtímavistun og gæsluvarðhald. Páll tekur áætluðum framkvæmdum fagnandi og segir það munu leysa ýmis mál, bæði hvað varðar hagkvæmni í rekstri og bætta aðstöðu fanga.

"Eftir því sem einingarnar eru minni, þeim mun óhagkvæmari eru þær," segir Páll. "Þess vegna gerum við ráð fyrir að rekstur á einni einingu fyrir 56 klefa sé talsvert hagkvæmari en rekstur tveggja lítilla eininga."

Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir við fangelsið á Hólmsheiði hefjist á fyrri hluta þessa árs, en útboðsgögn hafa ekki verið gerð opinber. Áætlaður kostnaður við byggingaframkvæmdir er sagður um 1,7 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×