Erlent

Njósnarinn sem afhjúpaði Önnu Chapman dæmdur

Herdómstóll í Moskvu hefur dæmt rússneskan ofursta í 25 ára fangelsi fyrir að hafa komið upp um njósnahóp hinnar kynþokkafullu Önnu Chapman og félaga í Bandaríkjunum í fyrra.

Ofurstinn sem hér um ræðir, hinn tæplega sextugi Alexander Poteev, var ekki viðstaddur þegar dómurinn var kveðinn upp því hann náði að flýja frá Rússlandi á síðustu stundu og fer nú huldu höfði í Bandaríkjunum.

Poteev var tvöfaldur í roðinu því hann njósnaði fyrir bæði Rússa og Bandaríkjamenn. Það voru upplýsingar frá honum sem ollu því að Bandaríkjamenn náðu að uppræta njósnahring tíu Rússa sem störfuðu í Bandaríkjunum.

Þegar málið komst í hámæli flúði Poteev Rússland í gegnum Hvíta Rússland á fölsuðu vegabréfi sem CIA útvegaði honum. Honum tókst aðeins að senda konu sinni stutt smáskilaboð í gegnum símann þar sem hann segist aldrei koma aftur og biður hana að passa upp á börn þeirra.

Málið endaði svo með fangaskiptum á flugvellinum í Vín í Austurríki og þóttu þau minna á heitustu tímana á dögum kalda stríðsins.

Anna Chapmann varð síðan þekkt sjónvarpsstjarna í Rússlandi í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×