Erlent

Úkraína vill fá aðildarheit ESB

Þessir úkraínsku reiðhjólakappar vissu vel hvert ferðinni var heitið þegar þeir kepptu í Rauðnauts-rallíinu í Kænugarði í vikunni. Sendiherra þeirra segir áfangastað þjóðarinnar vera vestrið. Nordicphotos/AFP
Þessir úkraínsku reiðhjólakappar vissu vel hvert ferðinni var heitið þegar þeir kepptu í Rauðnauts-rallíinu í Kænugarði í vikunni. Sendiherra þeirra segir áfangastað þjóðarinnar vera vestrið. Nordicphotos/AFP
Úkraínumenn vilja sterkara orðalag um að þeim kunni að standa aðild að ESB til boða í framtíðinni en utanríkisráðherrar ESB hafa viljað kvitta upp á. Þetta segir sendiherra landsins gagnvart ESB, Kostíantín Jelisejev, í viðtali við EUobserver.

Í nýlegri endurskoðun Nágrannastefnu ESB segir að utanríkisráðherraráð ESB „taki til greina Evrópumetnað og Evrópuval sumra þjóða“ en þetta þykir Úkraínumönnum ekki mikil skuldbinding af hálfu ESB.

Jelisejev sendiherra segir að í Kænugarði verði leitað hófanna um að sterkari heit verði sett í inngangsorð að væntanlegum samstarfssamningi við ESB, en þess fyrir utan á landið í fríverslunarviðræðum við sambandið, ásamt fleiri þjóðum. Samningur sá heitir „Verulegur og víðfeðmur fríverslunarsamningur“ og er sagður vera „létt-aðildarsamningur“, því í honum felst ákveðin aðlögun viðskiptalöggjafar Úkraínu að regluverki ESB.

„ESB-aðild er hugsjónin sem helst sameinar Úkraínumenn og því er svo mikilvægt að hafa þetta í inngangsorðunum,“ segir sendiherrann. Þetta sé heimspólitískt val landsmanna um að stíga í átt til vesturs, en Rússar hafa einnig boðið þjóðinni upp á fríverslun og ódýrt gas.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×