Lífið

Tilvonandi prinsessa er bæði óörugg og kvíðin

Sundrottningin og tilvonandi prinsessan Charlene Wittstock virðist kvíðin og óörugg. Nordicphotos/Getty
Sundrottningin og tilvonandi prinsessan Charlene Wittstock virðist kvíðin og óörugg. Nordicphotos/Getty
Albert prins af Mónakó gengur að eiga sunddrottninguna Charlene Wittstock um næstu helgi. Tilvonandi prinsessa hefur átt í erfiðleikum með að aðlagast menningunni og tungumálinu í Mónakó. Henni hefur verið bannað að veita viðtöl fram að brúðkaupinu.

„Hún var greinilega mjög kvíðin og óörugg þegar ég hitti hana,“ sagði suður-afríska blaðakonan Jenny Crwys-Williams um sundkonuna og tilvonandi Mónakóprinsessu, Charlene Wittstock, í viðtali við New York Times.

Tæp vika er þangað til Wittstock gengur að eiga Albert Mónakóprins, en tuttugu ára aldursmunur er á parinu, sem kynntist á sundmóti í Mónakó árið 2000.

Blaðakonan Crwys-Williams tók viðtal við Wittstock í febrúar á þessu ári en nú hefur konungshöllin tekið fyrir öll viðtöl við brúðina tilvonandi fram að brúðkaupi.

„Hún var mjög hrædd um að segja ekki réttu hlutina. Það var sérstakt augnablik þegar ég spurði hana hvort það væri satt að í konungshöllinni væri herbergi sem væri blátt á litinn og Wittstock svaraði: „Ég veit ekki hvort ég má tala um það“,“ segir blaðakonan og viðurkennir að hana hafi mest langað til að taka utan um Wittstock og segja henni að allt yrði í lagi.

Það er ekkert leyndarmál að Wittstock hefur átt erfitt með að koma sér inn í tungumálið og menninguna í Mónakó þau tíu ár sem hún hefur verið í sambandi með Alberti Mónakóprins. Sumir líkja tilvonandi hjónabandi þeirra við hjónaband Díönu prinsessu og Karls Bretaprins en flestir muna hversu illa það konunglega hjónaband endaði. Brúðkaupið fer fram um næstu helgi og eflaust verður mikið um dýrðir í Mónakó.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×