Innlent

Númeraðir kjörseðlar, lélegir kjörkassar og pappaskilrúm

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Þrír menn kærðu framkvæmd kosningarinnar og kröfðust ógildingar. Kærurnar voru sameinaðar fyrir Hæstarétti en þær snerust um framkvæmd kosningarinnar og talningu á kjörseðlum.

Í ákvörðun Hæstaréttar eru týnd til ýmis rök fyrir niðurstöðunni. Rétturinn segir það vera verulegan annmarka að kjörseðlarnir voru númeraðir.

Ekki þurfti að brjóta kjörseðlana saman en með vísan til laga um kosningar til Alþingis taldi rétturinn þá reglu hafa það markmið að tryggja rétt og skyldu kjósanda til leyndar um það hvernig hann ver atkvæði sínu. Það væri því einnig annmarki. Að vísu var rétturinn ekki sammála um þetta atriði en þetta var engu að síður niðurstaða meirihlutans.

Þá taldi Hæstiréttur kjörkassanna vera annmarka á framkvæmd kosningarinnar. Þeir voru gerðir úr pappa en rétturinn taldi að þeir ættu að vera úr traustara efni og unnt væri að læsa þeim. Í ákvörðun Hæstaréttar segir að kjörkassarnir væru þeirrar gerðar að unnt var án mikillar fyrirhafnar að taka þá í sundur og komast í kjörseðla. Þessi umbúnaður var því til þess fallinn að draga úr öryggi og leynd kosninganna.

Að mati Hæstaréttar gátu þau pappaskilrúm sem nýtt voru sem kjörklefar við framkvæmd kosningarinnar, ekki talist sem kosningaklefi í skilningi laganna. Þau afmarki ekki það rými sem kjósanda er eftirlátið til að kjósa í með þeim hætti að kjósandi sé þar í einrúmi. Þá uppfyllti þessi umbúnaður heldur ekki það skilyrði að þar mætti greiða atkvæði án þess að aðrir gætu séð hvernig kjósandi kaus, þar sem unnt var að sjá á kostningaseðil værir staðið fyrir aftan kjósanda sem sat við pappaskilrúmin. Hæstiréttur taldi þetta til þess fallið að takmarka rétt kjósanda til að nýta frjálsan kosningarétt sinn.

Þá var það annmarki á kosningunni að hún hafi ekki farið rfam fyrir opnum dyrum þar sem landskjörstjórn hleypti ekki fólki inn fyrir dyr á talningarstað, heldur var því einungis heimilt að fylgjast með af svölum.

Að lokum er það talinn verulegur annmarki á kosningunni að frambjóðendum var ekki skipaður fulltrúi við talningu, sem ætlað er að gæt réttar frambjóðenda lögum samkvæmt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×