Erlent

Kínverjar berja á mannréttindafrömuði

Kínverskar öryggissveitir réðust inná heimili mannréttindafrömuðarins Chen Guangcheng og konu hans Yuan Weijin og börðu þau til óbóta. Kinversku mannréttindasamtökin Chinese Human Rights Defenders upplýstu þetta, samkvæmt fréttum BBC og tóku fram að hjónin hafi ekki fengið að fara á sjúkrahús eftir barsmíðarnar.

Ástæða árásarinnar mun hafa verið myndband, sem baráttusamtökin China Aid birtu og sýnir Chen og konu hans þar sem þau eru í stofufangelsi við vægast sagt nöturlegar aðstæður. Chen var fjögur ár í fangelsi fyrir að uppljóstra um skipulegar fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, sem stjórnvöld höfðu framkvæmt á um 7000 konum gegn vilja þeirra. Eftir að honum var sleppt út fangelsi, í september síðastliðnum, hefur hann setið í stofufangelsi ásamt konu sinni.

,,Ég má ekki fara útfyrir hússins dyr. Konan mín má heldur ekki yfirgefa húsið. Aðeins móðir mín má fara út til að kaupa í matinn handa okkur" segir hinn blindi Chen, sem veitti löndum sínum lögfræðiaðstoð áður en hann var hnepptur í varðhald. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur vakið máls á stöðu Chen ásamt nýbökuðum friðarverðlaunahafa Nobels Liu Xiaobo .










Fleiri fréttir

Sjá meira


×