Erlent

Obama vill láta rannsaka málið til hlítar

Bill Lee Lögreglustjórinn í Sanford vék úr embætti tímabundið meðan málið er rannsakað.nordicphotos/AFP
Bill Lee Lögreglustjórinn í Sanford vék úr embætti tímabundið meðan málið er rannsakað.nordicphotos/AFP
„Ef ég ætti son, þá myndi hann líta út eins og Trayvon," sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti í gær. Þar með blandaði hann sér í umræðu um mikil hitamál í Bandaríkjunum, sem snýst um dráp á þeldökkum unglingspilti í bænum Sanford í Flórída í síðasta mánuði.

Trayvon Martin heitir sá og hafði skroppið út í sjoppu þegar hvítur maður skaut hann, að því er virðist að tilefnislausu.

Byssumaðurinn heitir George Zimmerman. Hann var á eftirlitsferð um hverfið á vegum nágrannagæslu þegar hann kom auga á Martin og hóf að elta hann, að sögn af því honum þótti hann grunsamlegur. Innan tíðar kom til átaka milli þeirra og þá dró Zimmerman upp byssu sína með fyrrgreindum afleiðingum.

Zimmermann sagðist hafa gert þetta í sjálfsvörn og lögreglan lét þá útskýringu duga, en almenningur brást ókvæða við og hefur efnt til ýmis konar mótmæla.

„Ég held að allir foreldrar í Bandaríkjunum ættu að geta skilið hvers vegna það skiptir öllu máli að við rannsökum allar hliðar þessa máls," segir Obama.

Tveir embættismenn í Sanford hafa nú vikið úr embætti tímabundið meðan málið er til rannsóknar, þeir Bill Lee lögreglustjóri og Norman Wolfinger saksóknari.

„Ég geri þetta í von um að skapa einhvers konar kyrrð í þessari borg, sem hefur verið í uppnámi í fleiri vikur," sagði Lee þegar hann tilkynnti um brotthvarf sitt.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×