Fótbolti

Ronaldinho hættur að mæta á morgunæfingar

Brasilíumaðurinn Ronaldinho kann þá list að vera góður við sjálfan sig betur en margir aðrir. Nú er leikmaðurinn hættur að mæta á morgunæfingar hjá félagi sínu, Flamengo.

Leikmenn liðsins eru nýkomnir úr góðu fríi en Ronaldinho er búinn að skrópa á morgunæfingarnar tvo daga í röð.

Hann er þó með afsakanir á reiðum höndum. Leikmaðurinn segist eiga erfitt með svefn og sé hreinlega andvaka langt fram eftir allri nóttu. Því sé hann ekki í ástandi til þess að æfa á morgnana.

Þjálfarinn hans, Vanderley Luxemburgo, er ekki að kaupa þessar afsakanir leikmannsins og grunar að ástæðan sé sú að leikmaðurinn sé út á lífinu allar nætur.

Bíða brasilískir fjölmiðlar nú eftir því að allt springi í loft upp í samskiptum leikmannsins og þjálfarans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×