Fótbolti

Ronaldo lagður inn á sjúkrahús með beinbrunasótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldo fagnar marki í úrslitaleiknum á HM 2002.
Ronaldo fagnar marki í úrslitaleiknum á HM 2002. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Ronaldo þurfti að leggjast inn á sjúkrahús í gær vegna veikinda en þá kom í ljós að hann er með beinbrunasótt sem er hitabeltissjúkdómur af völdum veiru sem berst í menn með biti moskítóflugu.

Ronaldo tilkynnti aðdáendum sínum þetta á twitter-síðu sinni eftir að hann hafði verið útskrifaður af sjúkrahúsinu. Ronaldo skrifaði jafnframt að hann væri byrjaður í meðferð, væri nú að hvíla sig og að safna orku en hafi sett stefnuna á það að ná fullri heilsu.

Beinbrunasótt veldur hita, hausverk og verkjum í beinum og liðamótum. Sjúkdómurinn getur leitt til dauða og það er hvorki til bóluefni eða sérstök meðferð við honum.

Ronaldo varð heimsmeistari með Brasilíu 2002 (líka í hóp á HM 1994) og er markahæsti leikmaður í úrslitakeppni HM frá upphafi með 15 mörk. Hann náði því meðal annars að spila með AC Milan, Inter Milan, Barcelona og Real Madrid á farsælum ferli sínum í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×