Fótbolti

Santos leggur niður kvennaliðið svo félagið geti haldið Neymar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórunn Helga Jónsdóttir í búningi Santos.
Þórunn Helga Jónsdóttir í búningi Santos. Mynd/Stefán
Forseti brasilíska félagsins Santos hefur gefið það út að félagið þurfi að leggja niður hið sigursæla kvennalið félagsins til þess að hafa efni á því að halda hinum 19 ára Neymar hjá félaginu. Neymar er einn eftirsóttasti knattspyrnumaður heims en ætlar að vera hjá æskufélagi sínu fram yfir HM 2014 sem fer fram í Brasilíu.

„Við sýndum hugrekki með því að halda Neymar en það mun vera okkur kostnaðarsamt. Ef við ætlum að vinna titla þá þurfum við að borga hærri laun og það er ekki auðvelt að skera niður," sagði Luis Alvaro de Oliveira Ribeiro, forseti Santos, á blaðamannafundi samkvæmt frétt hjá spænska blaðinu Marca.

Neymar hefur verið hjá Santos síðan að hann var níu ára gamall en spænsku stórliðin Real Madrid og Barcelona sýndu leikmanninum mikinn áhuga áður en hann samdi aftur við brasilíska félagið. Pele hefur verið að blaðra um að hann sé betri en Lionel Messi en flestir eru sammála því að hann sé framtíðarstjarna í fótboltanum.

Neymar fær 2,3 milljarða íslenskra króna í árslaun hjá Santos sem þýðir að hann er að fá rúmar 45 milljónir í laun á viku. Það eru ekki margir fótboltamenn í heiminum sem fá hærri laun en hann.

Kvennalið Santos var stofnað 1997 og hefur verið mjög sigursælt undanfarin ár. Þórunn Helga Jónsdóttir lék um tíma með félaginu og varð bæði brasilískur bikarmeistari og Suður-Ameríkumeistari með Santos-liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×