Viðskipti innlent

Hugsanlega að missa gott fólk

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilmundur Jósefsson er formaður Samtaka atvinnulífsins.
Vilmundur Jósefsson er formaður Samtaka atvinnulífsins.
Störfum hefur ekki fjölgað þegar litið er til heildarinnar, segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Hann segir að fólksflótti hafi verið til nágrannalandanna og hugsanlega séum við að missa gott fólk úr landi sem leiti atvinnutækifæra annarsstaðar. „Það er mjög slæmt fyrir þjóðfélagið í heildina," sagði Vilmundur Jósefsson í samtali við Reykjavík síðdegis í dag. Hann vonast þó til að ákveðnar stórframkvæmdir fari af stað á næstunni og vísar þar til framkvæmda í Helguvík og á Norðausturlandi.

Vilmundur viðurkennir að einhver aukning hafi orðið í landsframleiðslu á síðasta ári. „En það byggir því miður ekki á fjárfestingu heldur fyrst og fremst neyslu sem skapaðist vegna til dæmis úttekta á séreignarlífeyrissjóðssparnaði, vaxtaniðurgreiðslu Landsbankans og fleiri atriða sem valda því að fólk hefur fé milli handanna. En hagvöxtur til framtíðar er ekki nema til komi fjárfestingar og þær vantar algerlega," segir Vilmundur.

Samtök atvinnulífsins telja að til þess að hlutirnir geti komist aftur í það horf sem þeir voru fyrir hrun þá þurfi að nást í kringum 4-5%. Vilmundur segir að það sé raunhæft markmið ef rétt er haldið á spilunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×