Handbolti

Róbert: Ætlaði að standa mig í dag

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Róbert huggar Kenneth Klev.
Róbert huggar Kenneth Klev. mynd/vilhelm
Línumaðurinn Róbert Gunnarsson átti algjörlega stórbrotinn leik á línunni hjá íslenska liðinu í kvöld. Hann skoraði úr öllum níu skotum sínum í leiknum og fiskaði þess utan tvö vítaskot.

Róbert og Kári Kristján línumenn höfðu lofað því að raka skeggið sitt ef þeir myndu ekki skora í þessum leik og Róbert bjargaði skegginu strax í fyrstu sókn með flottu marki.

"Þetta var nú ekki bara út af því að ég vildi missa skeggið. Ég var hrikalega svekktur með sjálfan mig eftir Króatíuleikinn. Það var búið að ganga vel í undirbúningnum. Mér fannst þetta vera að koma og ég veit ekki hvað gerðist í Króatíuleiknum," sagði Róbert.

"Ég ætlaði heldur betur að standa mig vel í dag og það gekk upp. Ég veit það er klisja en þessi frammistaða hefði ekki skipt neinu máli ef við hefðum tapað. Ég er því eðlilega æðislega ánægður að fá þessi tvö stig í dag," sagði Róbert.

"Við höfum oft tapað í svona leikjum. Það var æðislegt að vera réttu megin við borðið núna. Ég skil vel hvernig Norðmönnunum líður. Það var eins gott að við unnum því við þurfum að umgangast þá mikið á hótelinu og ég hefði ekki viljað vera mikið í kringum þá ef við hefðum tapað.

"Þessi leikur hefði getað farið á hvaða veg sem er. Nú erum við í skýjunum en ef við hefðum tapað hefði allt verið ömurlegt. Það er hrikalega stutt á milli í þessu. Þetta var ekki stórkostlegur leikur af okkar hálfu og sérstaklega í vörninni. Við munum bæta það. Það er skrítið að vinna leik þar sem við erum ekkert ofboðslega góðir og tapa svo fyrir Króatíu þar sem við vorum góðir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×