Fótbolti

Ramsay vill að Bellamy spili áfram með landsliði Wales

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Aaron Ramsay, leikmaður Arsenal, hefur hvatt Craig Bellamy til að gefa áfram kost á sér í velska landsliðið. Bellamy verður fyrirliði liðsins í minningarleik um Gary Speed, fyrrum þjálfara liðsins, annað kvöld.

Wales mun þá mæta Kostaríku í Cardiff en Speed lést aðeins 41 árs gamall seint á síðasta ári. Talið er að hann hafi fallið fyrir eigin hendi.

„Craig hefur átt stóran þátt í velgengni liðsins. Hann hefur sannað hann er enn mjög hættulegur leikmaður auk þess sem hann býr yfir mikilli reynslu," sagði Ramsay sem er venjulega fyrirliði velska liðsins. Hann mun þó missa af leiknum á morgun vegna meiðsla.

Bellamy og Speed voru nánir og hefur sá fyrrnefndi ekkert gefið út um framtíðaráform sín með landsliðniu. Chris Coleman var ráðinn landsliðsþjálfari og mun Bellamy vera ósáttur við að Raymond Verheijen, fyrrum aðstoðarmaður Speed, hafi ekki fengið starfið.

„Hann mun tjá sig um þessi mál þegar hann er tilbúinn til þess," sagði Coleman um málið. „Hann þekkti Gary í langan tíma og var mjög náinn honum og fjölskyldu hans. Hann hafði áður hætt að spila með landsliðinu en kom til baka fyrir Gary. Þetta verður ekki auðveld ákvörðun fyrir hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×