Körfubolti

Tap hjá bæði Sundsvall og Solna | Hlynur með 20 stig í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Mynd/Valli
Sundsvall Dragons tókst ekki að komast í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld þegar liðið tapað með átta stigum á heimavelli á móti toppliði Norrköping Dolphins, 72-80. Logi Gunnarsson og félagar í Solna Vikings töpuðu naumlega á útivelli á móti Borås Basket.

Sundsvall-liðið átti í raun aldrei möguleika á móti Norrköping í þessum leik í kvöld þrátt fyrir að vera á heimavelli. Norrköping var komið tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 25-15, og var með 17 stiga forskot í hálfleik, 46-29. Sundsvall náði að laga stöðuna talsvert í seinni hálfleiknum en sigur Dolphins var samt ekki í mikilli hættu.

Hlynur Bæringsson var með 20 stig og 6 fráköst fyrir Sundsvall Dragons en Jakob Sigurðarson skoraði 13 stig og tók 7 fráköst. Jakob hitti hinsvegar aðeins úr 5 af 18 skotum sínum. Pavel Ermolinskij er enn meiddur.

Logi Gunnarsson og félagar í Solna Vikings lentu undir á útivelli á móti Borås Basket en misstu síðan niður fimm stiga forskot á síðustu þremur og hálfri mínútu leiksins. Borås Basket vann leikinn 96-93 eftir æsispennandi lokamínútur. Logi Gunnarsson skoraði 14 stig í leiknum.

Solna var yfir eftir fyrsta leikhlutann, 26-24, en tapaði síðan öðrum leikhlutanum með 11 stigum. 28-17. Solna var því níu stigum undir í hálfleik, 52-43, en náði að minnka muninn niður í þrjú stig, 71-68, fyrir lokaleikhlutann. Solna var komið yfir í 89-84 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir en Borås-liðið vann lokakaflann 12-4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×