Körfubolti

Helena og félagar unnu alla 24 leiki deildarkeppninnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Heimasíða Good Angeles Kosice
Helena Sverrisdóttir og félagar í slóvakíska liðinu Good Angeles Kosice voru í miklum ham á móti erkifjendunum í MBK Ruzomberok í lokaumferð deildarkeppninnar. Good Angeles liðið var fyrir nokkru búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn en vann þarna 100-57 sigur á MBK Ruzomberok sem endaði í 2. sæti.

Helena átti ágætan leik en hún var með 10 stig, 6 stoðsendingar og 3 fráköst en langstigahæsti leikmaður liðsins var bandaríska stelpan Danielle McCray sem skoraði 33 stig.

Good Angeles Kosice vann þar með alla 24 leiki sína í deildarkeppninni og var Helena með 14,7 stig, 4,1 frákast og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Helena spilaði 24,3 mínútur að meðaltali og náði þrisvar sinnum að skora 29 stig í einum leik.

Helena varð meðal efstu manna í bæði stigaskori og stoðsendingum en hún er í sjöunda sæti á báðum listum.

Framundan er úrslitakeppni sex efstu liðanna í deildinni en tvö efstu liðin sitja hjá í fyrstu umferð hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×