Körfubolti

Helgi og félagar unnu toppliðið á útivelli - úrslitakeppnin framundan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon.
Helgi Már Magnússon. Mynd/Daníel
Helgi Már Magnússon og félagar í 08 Stockholm HR sýndu styrk sinn í kvöld þegar þeir unnu topplið Norrkoping Dolphins á útivelli í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld. Hin þrjú Íslendingaliðin þurftu öll að sætta sig við tap. Þrjú af fjórum Íslendingaliðum í deildinni komust í úrslitakeppnina í ár.

Helgi Már Magnússon var með 5 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar þegar 08 Stockholm HR vann sjö stiga útisigur á toppliði Norrkoping Dolphins, 83-76. 08 Stockholm komst í 26-16 eftir fyrsta leikhlutann og var með 18 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 66-48. Helgi Már og félagar enduðu því deildarkeppnina á því að vinna tvö efstu liðin, Norrkoping í kvöld og svo Södertälje Kings í leiknum á undan.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði 24 stig og Hlynur Bæringsson var með 4 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar þegar Sundsvall Dragons tapaði illa á útivelli á móti LF Basket, 83-105. Sundsvall Dragons tapaði því þremur síðustu deildarleikjum sínum.

Brynjar Þór Björnsson skoraði 8 stig þegar Jamtland Basket tapaði með sex stigum á móti Sodertelje Kings á útivelli, 94-100. Jamtland Basket átti ekki möguleika á því að komast í úrslitakeppnina.

Logi Gunnarsson skoraði 8 stig og gaf 3 stoðsendingar þegar Solna Vikings tapaði með 18 stigum á útivelli á móti Örebro Basket, 102-120. Örebro var komið 15 stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 32-17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×