Körfubolti

Jakob bjargaði málunum í lokin - Sundsvall tryggði sér oddaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Mynd/Valli
Jakob Örn Sigurðarson skoraði tíu stig á síðustu sex mínútunum í 78-73 endurkomusigri Sundsvall Dragons á útivelli á móti LF Basket í átta liða úrslitunum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld.

Sundsvall náði þar með að jafna einvígið í 2-2 og tryggja sér oddaleik á heimavelli. Helgi Már og félagar í 08 Stockholm HR eru hinsvegar komnir í sumarfrí eftir tap á heimavelli.

Sundsvall var 65-73 undir þegar rúmar sex mínútur voru eftir af leiknum en tap hefði þýtt sumarfrí. Sundsvall-liðið, sem er ríkjandi sænskur meistari, vann lokakafla leiksins 13-0 og þar af skoraði Jakob tíu af þessum stigum.

Jakob endaði leikinn með 31 stig en hann skoraði sex þriggja stiga körfur í leiknum. Hlynur Bæringsson var með 6 stig og 12 fráköst en Pavel Ermolinskji tókst ekki að skora.

Helgi Már Magnússon skoraði öll 13 stigin sín í fyrri hálfleik þegar 08 Stockholm HR tapaði 80-93 á móti Norrköping Dolphins á heimavelli. Norrköping Dolphins vann einvígið þar með 3-1.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×