Enski boltinn

Gylfi valinn besti leikmaður marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var frábær í mars.
Gylfi Þór Sigurðsson var frábær í mars. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea City, hefur verið valinn besti leikmaður marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni en Gylfi spilaði frábærlega með nýliðunum í mars. Þetta er mikill heiður fyrir íslenska landsliðsmanninn sem er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur þessi verðlaun.

Það er sérstök nefnd á vegum ensku úrvalsdeildarinnar sem velur besta leikmanninn en það hefur ekkert farið framhjá neinum sem fylgjast með enska boltanum hvernig Gylfi hefur stimplað sig inn í bestu deild í heimi.

Gylfi skoraði 4 mörk í 4 leikjum í mánuðinum og hjálpaði Swansea að vinna þrjá af fjórum leikjum sínum. Mörkin hans komu í tveimur útileikjum en hann skoraði tvö mörk í bæði 2-0 sigri á Wigan og 3-0 sigri á Fulham.

Gylfi kemst í flottan hóp með því að hljóta þessi verðlaun en menn eins og David Silva, Robin van Persie, Gareth Bale og Scott Parker hafa allir hlotið þau í vetur.

Owen Coyle, stjóri Bolton var að sama skapi valinn besti stjóri mánaðarins.

Leikmenn mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu:

Ágúst Edin Džeko, Manchester City

September David Silva, Manchester City

Október Robin van Persie, Arsenal

Nóvember Scott Parker, Tottenham

Desember Demba Ba, Newcastle

Janúar Gareth Bale, Tottenham

Febrúar Peter Odemwingie, West Bromwich Albion

Mars Gylfi Þór Sigurðsson, Swansea City




Fleiri fréttir

Sjá meira


×