Innlent

Tvíhliða myntsamstarf við Kanada var rætt á fundi Steingríms í Ottawa

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að tvíhliða myntsamstarf við Kanada hafi komið til umræðu á fundi sem hann átti með fulltrúum Seðlabanka Kanada í Ottawa í síðustu viku. Sjá viðtal við Steingrím í myndskeiði með frétt.

Steingrímur segir að Kanadadollarinn hafi ekki verið sérstakt dagskrárefni, heldur hafi þessi mál verið óformlega rædd. Steingrímur segir mikilvægt að draga upp þær sviðsmyndir sem til greina komi fyrir Ísland varðandi framtíð myntarinnar. Umræðan um þessi mál þurfi að byggjast á góðum greiningum og staðreyndum um hvaða möguleikar séu raunhæfir og hverjir ekki.

Mikilvægast sé þó að undirstöðurnar séu í lagi, þ.e ríkisfjármálin, stöðugleiki og hagvöxtur. Steingrímur segir að skýrsla Seðlabankans sem komi í júní næstkomandi um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum verði mjög mikilvægt gagn. Umræðan um Kanadadollar sé ekki tabú, en mikilvægt sé að menn séu niðri á jörðinni. Þess vegna sé nauðsynlegt að fara yfir þessi mál með kanadískum stjórnvöldum. Steingrímur segir að ekki sé ráðgert að halda annan fund með kanadíska seðlabankanum í bili, en hins vegar komi til greina að senda sendinefnd til Kanada til að skoða banka- og fjármálalöggjöf landsins í upplýsingaskyni. Sjá myndskeið með fréttinni þar sem Steingrímur svarar spurningum fréttastofunnar um málið. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×