Sport

Annie Mist Evrópumeistari í crossfit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Stefán
Annie Mist Þórisdóttir úr CrossFit Reykjavík tryggði sér í dag Evrópumeistaratitilinn í crossfit en keppt var í Danmörku um helgina.

Íslensku keppendurnir stóðu sig með mikilli prýði á mótinu og rökuðu inn verðlaunum. Í öðru sæti í kvennaflokki varð Katrín Tanja Davíðsdóttir, CrossFit stöðinni og Þuríður Erla Helgadóttir úr CrossFit Sport hafnaði í þriðja sæti.

„Þetta fór eins og ég hafði reiknað með. Ég náði þó ekki öllum markmiðum mínum," sagði Annie Mist í spjalli við Crossfit.com. Um markmið sín á heimsleikunum í Kaliforníu sagði Annie:

„Ég ætla mér að sjálfsögðu sigur en allir eru orðnir svo góðir."

Íslendingar komust einnig á verðlaunapall í karlalfokki þar sem Númi Snær Katrínarson nældi í bronsverðlaun. Sigurvegari varð Daninn Frederik Aegidius sem er kærasti Anniear Mistar.

Lið CrossFit Reykjavík sigraði í liðakeppninni og lið CrossFit Sport hafnaði í öðru sæti.

Þrjú efstu sætin í hverjum flokki gefa þátttökurétt á heimsleikunum í crossfit sem fram fara í Kaliforníu í Bandaríkjunum í júlí. Þar á Annie Mist titil að verja og sökum þess gaf fjórða sætið í kvennakeppninni einnig þátttökurétt á heimsleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×