Fótbolti

Manchester United og Barcelona mætast í ágúst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Manchester United og Barcelona hafa samið um að mætast í æfingaleik í Gautaborg 8. ágúst næstkomandi en þetta verður annað sumarið í röð þar sem þessi stórlið mætast á undirbúningstímabilinu.

Manchester United vann 2-1 sigur á Barcelona í Bandaríkjunum í lok júlí í fyrra en Michael Owen skoraði sigurmark liðsins eftir að Nani hafði komið United í 1-0. Thiago jafnaði fyrir Barca.

Manchester United verður komið lengra í undirbúningi sínum fyrir tímabilið enda byrjar enska úrvalsdeildin fyrr en sú spænska. Fyrsti leikur United í deildinni er á móti Everton 18. eða 19. ágúst.

Manchester United byrjar undirbúningstímabilið á því að fara til Suður-Afríku og Kína í seinni hluta júlí en mætir síðan Vålerenga á Ullevaal leikvanginum í Osló þremur dögum áður en kemur að leiknum við Börsunga.

Allir leikmenn United ættu að vera klárir í leikinn á móti Barcelona fyrir utan Ryan Giggs sem verður upptekin með Ólympíuliði Breta á leikunum í London.

Barcelona verður duglegt á undirbúningstímabilinu en þetta er fyrsta leiktíð liðsins undir stjórn Tito Vilanova. Liðið mætir meðal annars Hamburger SV og Paris Saint-Germain áður en kemur að leiknum við Manchester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×